Lagalegur fyrirvari og skilmálar

Þjónusta verksala og þóknun

Fyrirvari þessi gildi um öll verk unnin af hálfu og fyrir hönd Fagsýnar ehf. Vegna verka sem eru unnin af Fagsýn þýðir „skoðunarmaður“ starfsmaður Fagsýnar, „verksali“ þýðir Fagsýn og „verkkaupi“ þýðir lögaðili eða einstaklingur sem óskar eftir þjónustu frá verksala. Þjónusta verksala skal tilgreind í beiðni um skoðun hverju sinni sem óskað hefur verið af verkkaupa og samþykkt af verksala.

Umfang þjónustu takmarkast við þá þjónustu sem tilgreind er í beiðni verkkaupa. Verksali ber ekki skyldu til að gera athugasemdir við eða vekja athygli verkkaupa á öðrum álitaefnum en sem lúta að skoðun sem er tilgreind í beiðni og ekki eru hluti af þjónustunni eins og hún er skilgreind í beiðni verkkaupa.

Verksala er ekki undir neinum kringumstæðum skuldbundið til að uppfæra ráðleggingar, niðurstöður, skýrslur, kynningar eða aðrar vörur, hvorki munnlega né skriflega (komi upp krafa um slíkt), eftir að skoðunarskýrsla hefur verið afhent verkkaupa í sinni endanlegu mynd. Allar breytingar á umfangi umsaminnar þjónustu skulu vera samþykktar skriflega af aðilum.

Þóknun verksala fyrir þjónustuna skal vera í samræmi við samþykkta beiðni. Hafi ekki verið sérstaklega samið um fjárhæð þóknunar áður en vinna hefst, skal þóknun vera samkvæmt tímagjaldi verksala í samræmi við gildandi verðskrá á þeim tíma sem þjónustan er innt af hendi. Allur útlagður kostnaður verksala í tengslum við framkvæmd verks skal greiddur af verkkaupa. Við þóknun verksala bætist virðisaukaskattur í samræmi við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Framkvæmd skoðunar og ábyrgð aðila

Skoðun nær ekki til óaðgengilegra svæða sem ekki sjást við sjónskoðun, þ.m.t. undir eða á bakvið innréttingar, skápa eða önnur húsgögn og hirslur. Skoðunarmaður færir ekki til vegghengda eða fasta hluti á borð við myndir, listaverk eða annan búnað sem hindrar aðgengi skoðunar. Ekki er skoðað undir eða á bakvið sturtubotna, baðkör eða lokuð vask- eða lagnarými.

Skoðunarmaður veldur ekki raski með rofi á byggingarefnum, loftaklæðningu, gólfefnum, veggklæðningu, flísalögn eða öðru sem veldur skemmdum á framangreindu nema að undangenginni beiðni verkkaupa/húseiganda ef óskað er eftir sýnatöku úr byggingarhluta vegna gruns um raka eða örveruvöxt.

Raflagnir, neyslu- og miðstöðvarlagnir eru ekki skoðaðar sérstaklega, en tilgreind er athugasemd án ábyrgðar í skýrslu ef vart verður við áberandi vankanta við sjónskoðun skoðunarmanns. Skoðun og myndun fráveitulagna, skólps og drenlagna er ekki innifalin í þjónustu verksala.

Verksali ber ekki ábyrgð á efni munnlegrar ráðgjafar, eða drögum að afurð, eða þeim ákvörðunum eða afleiðingum ákvarðanna sem teknar eru á grundvelli slíkrar munnlegrar ráðgjafar eða drögum að afurð. Skoðunarskýrsla verksala er byggð á þeim gögnum og upplýsingum sem hafa verið gerð aðgengileg skoðunarmanni eða verksala þegar skoðun fasteignar fer fram eða afhent verksala sérstaklega í tengslum við skoðun. Niðurstöður og ályktanir sem fram eru settar í skýrslunni byggjast á því að upplýsingar og önnur gögn sem skýrslan grundvallast á séu fullnægjandi og réttar. Skoðunarskýrsla tekur eingöngu til tilgreindrar fasteignar sem skoðuð er og skýrsla fjallar um. Verkkaupi skal ekki byggja á efni skýrslunnar einnar og sér við ákvarðanatöku um kaup á fasteign eða við öflun upplýsinga um ástand viðkomandi fasteignar.

Einungis verkkaupi hefur heimild til að nýta skoðanir, skýrslur og aðrar afurðir verksala samkvæmt samþykktri beiðni og þá eingöngu vegna þeirrar þjónustu sem fram kemur í þeirri beiðni. Verksali tekur enga ábyrgð á notkun þriðja aðila á afurðum verksala og/eða þjónustunni eða notkun verkkaupa á henni. Verkkaupi samþykkir að verksali skuli ekki vera ábyrgur gagnvart verkkaupa eða þriðja aðila, fyrir nokkrum kröfum, skuldbindingum, tapi, tjóni, kostnaði, skaðabótum í tengslum við, eða vegna þjónustunnar sem veitt er fyrir hærri fjárhæð en sem nemur einfaldri þeirri þóknun sem verkkaupi greiðir verksala fyrir þjónustuna, nema að því leyti sem úrskurðað er fyrir dómi að orðið hafi til vegna sannanlegs tjóns sem rekja má til ásetnings eða stórfellds gáleysis verksala, eigenda eða starfsfólks þess. Starfsfólk og eigendur verksala skulu aldrei vera persónulega ábyrgir. Fjárhæðartakmörkun ábyrgðar gildir í heild fyrir allar kröfur sem kunna að rísa á hverjum tíma í tengslum við þjónustuna, hvort sem slíkar kröfur eru lagðar fram samtímis eða ekki, bornar fram af verkkaupa, eða af öðrum aðilum.

Með því að samþykkja fyrirvara þessa og skilmála lýsir verkkaupi því yfir að hann skilji og undirgengst þá fyrirvara og skilmála sem gilda um þjónustu verksala. Þá staðfestir verkkaupi að hann hafi aflað allra viðeigandi heimilda og hefur fullt aðgengi að þeirri fasteign sem beiðni um skoðun lítur að. Verkkaupi skal bera ábyrgð á því afla heimilda þriðju aðila, hvort sem það eru eigendur fasteignar, leigjendur eða aðrir aðilar.

Trúnaður

Skoðun  er trúnaðarmál milli verkkaupa og verksala og er skýrsla eða önnur viðkomandi gögn einungis afhent skráðum verkkaupa eða staðfestum fulltrúa á hans vegum. Skoðunarskýrslu má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósrita, ljósmynda, prenta eða á annan hátt, að hluta til eða í heild sinni. Verkkaupi skal nýta þjónustu verksala einungis í þeim tilgangi sem tilgreint er í samþykktri beiðni eða síðara samkomulagi aðila. Öll þjónusta sem veitt er á grundvelli beiðni er einungis ætluð hagsmunum verkkaupa Skoðunarskýrslu má einungis nota í þeim tilgangi sem henni er ætlað og í tengslum við tilgreint kaup- eða söluferli hverju sinni. Öll vinna og gögn framkvæmd af skoðunarmanni er eign verksala.

Óheimilt er að dreifa skoðunarskýrslu eða tengdum gögnum til þriðja aðila nema með skriflegu leyfi viðkomandi málsaðila og verksala.

Aðilar skulu ekki bera ábyrgð á töfum eða vanefndum vegna aðstæðna eða atvika sem ógerlegt er að hafa vald á. Á þetta meðal annars við um aðgerðir eða vanrækslu eða skort á samstarfi af hálfu aðila og aðila undir þeirra stjórn eða starfsfólks sem má rekja til óviðráðanlegra aðstæðna eða atvika. Atvik sem geta fallið hér undir eru eldsvoði, farsóttir, náttúruhamfarir, verkföll, vinnudeilur, stríð eða önnur ofbeldisverk, vegna lagaskyldu, stjórnvaldsákvarðana eða fyrirmæla frá opinberum stofnunum og yfirvöldum.